top of page
Steinunn_portrett_vef-upplausn.jpg

Hæ!

Steinunn heiti ég og hef alltaf verið svolítið dreymin týpa, mitt nánasta fólk lýsir mér sem duglegri "no bullshit" týpu - hvað sem það þýðir.  Ég er ljón í stjörnumerki og elska að eiga afmæli.

  • Facebook
  • Instagram

Sagan mín

Á fögrum sumardegi í júlí fæddist meybarn ungum hjónum í Stafholtstungum. Meybarn þetta þótti ósköp frítt og voru prinsar víða að sem... of mikið?

Byrjum á tónlistar Steinunni. Ég byrjaði fjögurra ára að læra á fiðlu en á mínum grunnskóla árum lærði ég lengst af á píanó og þverflautu. Mér datt svo í hug að fara í menntaskóla til Reykjavíkur sem varð til þess að ég byrjaði að syngja í kór, Gradualekór Langholtskirkju hjá Jóni Stefánssyni. Úr varð að ég hóf einsöngsnám hjá eiginkonu hans, Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, og útskrifaðist með 8. stig nokkrum árum síðar frá Söngskóla Reykjavíkur undir leiðsögn Ólafar. Á þessum tíma söng ég einnig í fleiri kórum hjá Jóni, Kór Langholtskirkju og Graduale Nobili en þar var ég meðlimur í tíu ár. Ég lenti í raddmissi stuttu eftir 8. stigið sem síðar uppgötvaðist að stafaði vegna astma. Á meðan fundið var út úr lyfjum og ég gerði mig tilbúna til að vinna röddina mína upp aftur ákvað ég að flytja í eitt ár til Vínarborgar þar sem ég tók nokkur bókleg fög í tónlistarháskóla, lærði þýsku, kynntist fólki og naut lífsins.

Áður en ég flutti aftur heim byrjaði ég smám saman að taka einn og einn söngtíma og sótti svo um í Listaháskóla Íslands þegar voraði og ég snéri aftur heim. Ég hóf því nám við LHÍ á söngbraut haustið 2018. Þegar ég barðist við raddleysið í Vínarborg þurfti ég að horfast í augu við það hvað ég myndi nú gera í lífinu ef ég gæti ekki sungið. Tónsmíðar komu þar efst upp í kollinn en ég hafði byrjað að prufa mig áfram í tónsmíðum og fékk aðstoð frá hljómfræðikennararnum við skólann úti. Í Listaháskólanum þurftum við að velja okkur auka hljóðfæri til að læra á en flestir söngnemendur völdu píanó. Mér fannst ég ágætlega fær á píanó, enda komin aðeins inn í framhaldsstigið þegar ég hætti námi á slaghörpuna, og spurði þess vegna hvort ég mætti læra tónsmíðar sem aukafag. Kennarar skólans eru opnir fyrir öllu en enginn nemandi hafði áður tekið tónsmíðar sem aukafag. Ég fékk að velja mér kennara og valdi að sjálfsögðu hana Hildigunni Rúnarsdóttur sem ég hafði litið upp til í mörg ár. Söngkennarar mínir á þessum árum voru þau Þóra Einarsdóttir, Hanna Dóra Sturludóttir, Kristinn Sigmundsson, Ólöf Kolbrún Harðardóttir og Stuart Skelton.

Á síðasta árinu mínu við LHÍ fór ég svo í skiptinám í Konunglega Tónlistarháskólann í Stokkhólmi og lærði þar hjá Asu Baverstam. Ég útskrifaðist svo vorið 2021 og hélt beint áfram í master í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst og útskrifaðist þaðan árið 2023.

Í dag syng ég mikið við jarðarfarir, t.d. með litlum kammerhóp sem ég stofnaði í Borgarfirði, Kammerhópnum Kviku en einnig stofnaði ég sönghópinn Borgarfjarðardætur fyrir 8 árum síðan. Sjálf hef ég fengið styrki til náms, t.d. úr minningarsjóðum Vilhjálms Vilhjálmssonar og Heimis Klemenzsonar. Ég hef sungið einsöng, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands og kórunum í Langholtskirkju. Í dag syng ég einnig í brúðkaupum og við ýmsar uppákomur, bæði klassík og svo popp (stundum þori eg að spila sjálf á píanóið). Einnig sem ég kórtónlist fyrir verkefni sem ég skapa mér sjálf, einsöngsverk fyrir plötur og hef fengið að spreyta mig á kvikmyndatónlist fyrir eina stuttmynd.

Ljósmyndunin

Ég keypti mér fyrstu myndavélina fyrir fermingarpeningana sem ég tók með mér alla daga í skólann svo bekkjarsystur mínar úr grunnskóla voru vel myndaðar. Tveimur árum síðar keypti mamma svolítið meira PRO myndavél sem ég er nokkuð viss um að ég hafi notað meira en hún. Þegar ég útskrifaðist úr grunnskóla var ég strax byrjuð að fá ljósmyndaverkefni innan fjölskyldunnar svo ég fikraði mig áfram á ljósmyndasviðinu í nokkur ár. Myndavélin hennar mömmu varð svo eilítið þreytt og það fór að vera mikið að gera hjá mér í menntaskóla og í söngnáminu, svo þetta áhugamál fór á hilluna í bili. Vorið 2023 var farið að vera mikið að gera hjá mér í tónsmíðaverkefnum, fékk ég þá flugu í hausinn að taka aftur upp ljósmyndunina og vonast þá til þess að með tíð og tíma gæti ég orðið sjálfstætt starfandi listakona með tónlist og ljósmyndun sem mínar tekjulindir. Mér finnst svo ótrúlega gaman að vinna í skapandi umhverfi og hitta nýtt fólk svo ég sé ekki eftir þessari ákvörðun.

Vertu í bandi!

Ég er alltaf til í verkefni við ljósmyndun, tónsmíðar eða -framkomu! 

bottom of page